Alþjóðlegt ár ljóssins

Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt árið 2015 Alþjóðlegt ár ljóssins og því verður fagnað með ýmsum hætti um allan heim. Hér á landi vinna fjölmargir aðilar saman að  uppákomum og viðburðum sem tengjast árinu, þar á meðal Háskóli Íslands. Hér gæti verið tilvalið tækifæri fyrir kennara og nemendur til að fá hugmyndir að verkefnum fyrir Landskeppni Ungra vísindamanna.

 

Fjölmargar fræðigreinar tengjast Ári ljóssins á einhvern hátt og röð fyrirlestra um ólík fræðasvið verða á árinu, þar sem kennarar og nemendur geta sótt sér innblástur. Þess má meðal annars geta að árlegt Hugvísindaþing HÍ, sem fer fram í mars, verður að þessu sinni helgað ljósinu í víðri merkingu.  

 

Mikil áhersla verður lögð á ungt fólk á ári ljóssins, og er meðal annars fyrirhugað að virkja nemendur um land allt til að skoða stjörnuhimininn og skrásetja það sem fyrir augu ber. Þannig verður hægt að búa til Íslandskort yfir ljósmengun og myrkurgæði á tilteknum svæðum á landinu og gera tillögur að úrbótum þar sem þess gæti verið þörf, m.a. með tilliti til orkusparnaðar. – Kannski væri þetta hugmynd til þess að byggja á sem rannsóknarverkefni fyrir  Landskeppni Ungra vísindamanna!

 

Við hvetjum kennara og nemendur til að fylgjast vel með dagskrá Árs ljóssins, taka þátt í viðburðum og nýta tækifærin til að fá innblástur og hugmyndir.

 

Upplýsingar um Alþjólegt ár ljóssins á Íslandi og viðburði á árinu verður hægt að nálgast á www.ljos2015.hi.is og á Facebook síðu ársins.

 

Að lokum minnum við á að frestur til að skrá sig til þátttöku í Landskeppni Ungra vísindamanna er 1. febrúar 2015. Og ekki má gleyma að Evrópukeppnin fer að þessu sinni fram í Mílanó á Ítalíu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is