Hvati fyrir nemendur og kennara

Marta Guðrún Daníelsdóttir fór í lok septembermánaðar 2014 til Varsjár í Póllandi til að fylgjast með Evrópukeppninni Ungir vísindamenn, þar sem nemandi hennar, Hinrik Ragnar Helgason, keppti fyrir Íslands hönd. Hún hafði frá mörgu að segja eftir þessa ferð og var ekki í nokkrum vafa um tækifærin sem geta legið í þátttöku. Marta leggur áherslu á mikilvægi þess að keppendur séu með verkefni sem þeir hafa brennandi áhuga á, það skili sér best.

 

Marta er kennari í náttúrufræðum og stærðfræði í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Bakgrunnur hennar er fjölbreyttur því hún er með BS í efnafræði og meistarapróf í umhverfisverkfræði auk þverfaglegs meistaraprófs í tölfræði, hagnýtri stærðfræði, fiskifræði og skógfræði. Þessi breiði bakgrunnur nýtist mjög vel í kennslu og miðað við hlýlegt viðmót Mörtu og skemmtilega nærveru, getur varla verið annað en skemmtilegt í kennslustundum hjá henni.

 

Þetta er sjötti vetur hennar í kennslu og hún telur að starfið verði sífellt skemmtilegra.„Það er frábært að vinna með fólki á þessum aldri því það er svo skapandi og skemmtilegt,“ segir Marta.

 

Þegar Marta er spurð álits um keppni Ungra vísindamanna hér heima og í Evrópu segist hún hiklaust mæla með henni fyrir framhaldsskólanema. „Mér fannst heilmikil upplifun að fá að fara og taka þátt,” segir hún. „Það var gaman að skoða verkefni keppenda og þetta styrkti mig í þeirri trú að það sé mikilvægt að þjálfa nemendur í vísindalegum vinnubrögðum.”  Hún segir metnaðinn sem margir nemandanna lögðu í verkefni sín mjög eftirminnilegan, og nefndi að auki viðburðina tengda keppninni, svo sem kvöldverð í kastala fyrsta kvöldið og opnunarhátið. „Það var mjög gaman að heimsækja þessa snyrtilegu og fallegu borg, Varsjá sem  á sér náttúrulega ótrúlega sögu! Mér fannst Pólverjar einstaklega  vinalegir en styrkleikar þeirra liggja þó í öðru en matargerð.“  

 

Hún mælir eindregið með því að kennarar nýti sér þessa keppni til þess að styðja við kennslu sína. „Ég tel það mikinn kost ef kennarar geta samtvinnað þátttöku í þessari keppni við kennsluna hjá sér. Vafalaust er hægt að aðlaga marga áfanga að þessu án þess að breyta miklu.“ Hún segir að það virki hvetjandi á nemendur að gera góð verkefni ef fleiri en bara kennarinn fái að sjá þau og bætir því við að „allt sem er raunveruleikatengt, og snýst um meira en að bara skila því til kennara, er rosalega hvetjandi.”

 

Marta ítrekar að landskeppnin hafi verið góð reynsla fyrir alla og hvetur til þátttöku. „Jafnvel þó þau hafi ekki komist alla leið þá var þetta mikið og stórt skref og góður lærdómur fyrir alla. Bæði það að vinna hugmyndina, fara niður í HÍ, hitta prófessora og þurfa að standa fyrir máli sínu,“ segir hún. Þá ítrekar hún að það sé mikilvægt að nemendur hafi frjálsar hendur í efnisvali, þar sem áhugadrifin verkefni gangi betur og þar af leiðandi skili þau bæði betri lærdómi og þekkingu.

 

Varðandi þátttöku í keppninni segir Marta að skipulag skipti máli og ekki síður brennandi áhugi á viðfangsefninu “Fyrir þá sem vilja taka þátt er mikilvægt að byrja að hugsa um verkefnið snemma. Oft þarf að láta hugmyndir gerjast og þær taka á sig mynd með tímanum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að keppendur séu með verkefni sem þeir hafa brennandi áhuga á. Það er mikil vinna að gera þetta vel og nauðsynlegt að vinnan sé drifin áfram af áhuga á viðfangsefninu. Keppendur læra lang mest á því að vinna með sína eigin hugmynd.“

 

Aðspurð um góð ráð að lokum þá leggur hún áherslu á skýran tímaramma og að nýta þá aðstoð sem í boði er. „Ég held að það sé mikilvægt að setja upp skýran tímaramma og endilega að hvetja keppendur til að nýta vel athugasemdir og aðstoð leiðbeinanda HÍ,“ segir Marta. „Fyrir áfangaskóla sem vilja tengja verkefnin inn í áfangana er pínu snúið að skila inn hugmyndum stuttu eftir áramót þegar það er algengast að kennsla byrji 5. - 8. janúar. Ég er sjálf að hugsa um að reyna að auglýsa þetta fyrir áramót, sennilega þegar dagsetning á skilafresti liggur fyrir,“ segir Marta að lokum, reynslunni ríkari og tilbúin í þátttöku á nýju ári.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is