Sköpuðu sér framtíðaratvinnutækifæri í Ungum vísindamönnum

Árið 2005 voru vinkonurnar Lilý Erla Adamsdóttir, Valdís Ösp Jónsdóttir og Una Guðlaug Sveinsdóttir úr Menntaskólanum á Akureyri á meðal þátttakenda í keppninni Ungir Vísindamenn. Þær sigruðu landskeppnina hér heima með verkefnið Nuddgallinn og kepptu því fyrir Íslands hönd í Evrópukeppninni sem þá fór fram í Moskvu. Vinkonurnar höfðu þróað og útfært hugmynd um nuddgalla fyrir ungabörn sem kennir foreldrum að nudda börn sín. Skömmu eftir að þær komu heim stofnuðu þær síðan fyrirtæki í kringum verkefnið  og starfa tvær þeirra  enn við framleiðsluna. 
 
Við ræddum við þær stöllur um verkefnið en þær voru á einu máli um að þátttakan í keppninni hafi verið skemmtileg, lærdómsrík og gefandi. Una Guðlaug sagði okkur nánar frá ferlinu, hvernig verkefni þeirra kom til og hvernig þeim fannst að taka þátt. 
 
„Við vorum á lokaárinu okkar í MA vorið 2005 og kennarinn okkar í uppeldisfræði, Brynja Harðardóttir, hvatti okkur til að nýta lokaverkefnið í uppeldisfræðiáfanganum til þáttöku í Ungir vísindamenn. Hún kynnti keppnina fyrir okkur og fékk fyrrum sigurvegara úr landskeppninni, Önnu Sigríði Kristjánsdóttir sem hafði sigrað með verkefni um vetnishús, til að kynna fyrir okkur keppnina.“ Drifkraftur Brynju varð til þess að fjórir hópar úr bekknum tóku þátt í landskeppninni og stóð á bakvið fjögur af sjö verkefnum sem kepptu þetta ár.  
 
Spurð að því hvernig þær hafi fengið hugmyndina að nuddgallanum segir Una Guðlaug „Við sátum þarna að „brainstorma“ og fengum hugmynd að galla sem nuddaði barn. Við skissuðum því upp galla sem maður gat stungið í samband en það var allt of flippuð hugmynd og við hlógum og gerðum mikið grín að henni. Svo þegar við vorum búnar að hugsa þetta aðeins lengra og þróa hugmyndina betur komst gallinn í núverandi mynd.“ Í stað galla er þetta samfella sem nuddar ekki sjálf heldur sýnir hún leiðbeiningar sem foreldrarnir geta nýtt sér til að nudda börn sín. Þannig hvetur hún foreldrana til að verja tíma með börnunum sínum og nudda þau, sem getur verið gott og gefandi fyrir samband þeirra við börnin. „Þetta kenndi okkur að gefa öllum hugmyndum séns, því þó eitthvað virðist ótrúlega flippað og fyndið í upphafi þá er alveg hægt að finna eitthvað út úr því.“
 
Una Guðlaug segir þátttökuna í keppninni hér heima hafa verið stórskemmtilega. Það hafi verið mikil vinna að undirbúa keppnina og stelpurnar hafi verið svo mikið saman að þær voru farnar að klára setningar hver fyrir aðra og mynda einkahúmor á því stigi að engin annar skildi. „Við vorum vinkonur fyrir en það má segja að við höfum orðið enn betri vinkonur við þetta og erum enn miklar vinkonur.“
 
 
„Við byrjuðum að vinna þrjár frumgerðir af gallanum, samfellur keyptar út í búð sem Lilý Erla handsaumaði leiðbeiningar í“ útskýrir Una Guðlaug. Síðan bjuggu stúlkurnar til spurningalista og leyfðu foreldrum að prófa gallana á börnum sínum. Foreldrarnir svöruðu síðan spurningum um hvernig samfellan reyndist þeim. Þótt úrtakið hafi verið smátt til að byrja með, var þetta góð byrjun á löngu ævintýri en Una Guðlaug segir að það hafi verið ógleymanlegt að sjá hugmyndina sína verða að veruleika.  
Sem fyrr segir þá sigruðu stúlkurnar keppnina hér heima og voru því sendar í Evrópukeppnina til að keppa fyrir hönd Íslendinga. Keppnin úti var mikil og mögnuð upplifun en líka nokkuð óvenjuleg. „Rússland er kannski ekki frjálslyndasta land í heimi og við vorum oft nálægt því að koma okkur í vandræði.” En með góðri hjálp bjargaðist þetta þó allt saman. Una Guðlaug segir að það hafi verið ótrúlega gaman að standa í básnum og kynna verkefnið og góð æfing að þurfa að svara öllum spurningum á ensku. Það var einnig spennandi að koma til Rússlands, upplifa menningarheim ólíkan þeim íslenska og kynnast keppendum hvaðanæva að. 
 
 
Eftir að stelpurnar komu heim hafa þær unnið verkefnið meðfram námi, starfi og barnauppeldi. „Árið 2006 stofnuðum við fyrirtækið Cuddle Me og fórum í framhaldi af því að selja samfellurnar. Síðan þá er þetta búið að malla í hjáverkum hjá okkur og við erum enn að selja þessa galla. Á sama tíma erum við allar búnar að ljúka háskólanámi, Valdís er búin að eignast þrjú börn og Lilý eitt, við erum búnar að búa í ýmsum löndum en nuddgallinn hefur alltaf fylgt okkur. Nú höfum við sett kraft í þetta aftur og samfellan er kominn í sex búðir, þrjár á Akureyri og þrjár í Reykjavík.“ Verkefnið er enn í þróun og núna langar þær til dæmis að fara yfir í að nota lífræna bómul. 
 
Eins og sjá má þá eru þessar hugmyndaríku og athafnasömu vinkonur hæstánægðar með að hafa tekið þátt í landskeppninni og Evrópukeppninni Ungir Vísindamenn enda var ferlið ógleymanlegt og hafði svo sannarlega áhrif á framtíð þeirra. 
 
Upplýsingar um þátttöku í keppninni má finna á http://ungirvisindamenn.hi.is/
 
Meira um Cuddle Me á facebooksíðunni: https://www.facebook.com/CuddleMe
 
 
 
 
 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is