Hinrik og „Flækjan“ keppa í VarsjáÍ lok þessarar viku hefst Evrópukeppni ungra vísindamanna í Varsjá í Póllandi. Hinrik Ragnar Helgason keppir þar fyrir Íslands hönd með verkefnið Flækjan eða „The Tangle“ sem var hlutskarpast í Landskeppni ungra vísindamanna fyrr á þessu ári.

Hinrik lauk nýlega námi frá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ en hefur nú hafið nám í hestafræðum við Háskólann á Hólum. Hann er mikill áhugamaður um hesta og hefur verið bæði íþrótta og gæðingadómari í ýmsum keppnum. Þar að auki hefur hann keppt sjálfur og lenti meðal annars í 2. sæti í tölti á Íslandsmeistaramóti í hestaíþróttum 2014. 
 
Framlag Hinriks til Evrópukeppni ungra vísindamanna tengist óbeint hestamennskunni, því segja má að hugmyndin hafi kviknað meira og minna á hestbaki. Verkefnið er lausn á vandamálinu sem fylgir því að geyma heyrnartól í vasanum eða annarsstaðar, þar sem snúran vill alltaf flækjast. Hugmyndina fékk Hinrik eftir að hafa verið í sífellu með flókahnút í höndunum þegar grípa átti til heyrnatólanna. Þetta gerist sérstaklega oft þegar hann sinnir hestunum og hefur hann náð að flækja heyrnartólin við ólíklegustu hluti sem leitt hefur til ýmissa vandræða og oftar en ekki hafa tækin endað á jörðinni undir fótum hesta og manna.
 
Nútíminn kallar á að við séum á ferð og nýtum tímann vel, hlustum á hlaðvörp, hljóðbækur og fylgjumst með því sem er að gerast í heiminum. Þess vegna er mikilvægt að gagnleg tæki eins og heyrnartól virki vel og séu ekki til trafala. 
 
HRH plugs eins og Hinrik kallar heyrnatól sem hann hannaði, byggja á því að snúrur þeirra vindast inn í lítið hylki sem er byggt upp eins og málband sem rúllast sjálfkrafa upp. Snúrurnar eru auk þess flatar en tilraunir sýna að slíkar snúrur flækjast síður en þær sívölu. Hægt er að stilla lengd snúrunnar af eftir hentugleika og hún er dregin inn með einni takkahreyfingu.   
 
Hugmynd Hinriks hefur ýmsa fleiri kosti og er meðal annars umhverfisvæn, því bæði eiga Flækjan. The Tangle.heyrnatólin að geta enst lengur í útfærslu Hinriks og þau þurfa engar auka umbúðir.  Þegar tæki endast vel og lengi myndast mun minni úrgangur meðal annars vegna þess að við þurfum að framleiða minna og færri hlutir enda strax í ruslinu; en einnig vegna þeirra orku sem framleiðsla krefst. Hinrik telur þetta mikilvægt og vonast til að heyrnartól hans standi undir þessum kröfum.  
Ferðin til Varsjár verður án efa mikið ævintýri fyrir Hinrik. Þar hittir hann jafnaldra víðs vegar að úr Evrópu, vísindamenn framtíðarinnar og verða þar örugglega margir snillingar á ferð. Verkefnin í keppninni og áhugamál keppendanna eru mörg og ólík svo þarna verður margt að sjá, heyra og læra.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is