Áhrif fjölbreytilegs umhverfis á sköpunargáfuna

Hrafn Þorri Þórisson.Hrafn Þorri Þórisson, nemandi á félagsfræðibraut í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fjallaði um áhrif fjölbreytilegs umhverfis á þróun sköpunargáfu í verkefni sínu „Áhrif fjölbreytilegs umhverfis á sköpunargáfuna.“ Verkefnið var annað tveggja verkefna sem bar sigur úr býtum í Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2004.Í verkefninu var lögð áhersla á sköpunargáfu í vélvæddri greind. Fáar eða engar nútímarannsóknir á vélviti (e. artificial intelligence) leggja áherslu á þessa eiginleika mannlegs vits og er að mestu leyti látið sem sköpunargáfa sé eins konar hliðarafurð af rökfræði.

Til að rannsaka þessa eiginleika skapaði Hrafn Þorri heim þar sem íbúarnir eru skordýr sem gædd eru eiginleikum, æxlast og þróast. Til að líkja eftir þeirri þróun sem á sér stað í náttúrunni notaði Hrafn einfalda genetíska-algorithma, sem sáu um þá stöð í heila dýra sem mynduðu ráðagerðir. Umhverfið var síðan hannað til að vera hliðstætt því sem gengur og gerist í náttúrunni, þ.e. með vistkerfi þar sem gróður vex, dafnar og deyr. Hringrásin fékkst með því að nota reikniaðferðir sem kallast Cellular Automata. Í verkefnalýsingunni sagði Hrafn að þessi reglulega hringrás væri mikilvæg fyrir þróun greindar, þar sem ólíklegt væri að dýr gætu lært að lifa í heimi glundroða, sama hversu gott greindarkerfi þeirra væri.

Verkefnið keppti í Evrópukeppni Ungra vísindamanna sem fór fram í Dublin á Írlandi þetta árið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is