Um keppnina

Ungir vísindamenn er verkefni á vegum Evrópusambandsins sem hefur það markmið að efla hæfni ungs fólks til að vinna að rannsóknarverkefnum og stuðla að auknu frumkvæði og sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda á sama tíma og því er ætlað að stuðla að samstarfi ungra vísindamanna þvert á landamæri þátttökuríkjanna. 

Keppnin fer fram í tveimur áföngum. Fyrst mætast þátttakendur í landskeppni í sínu heimalandi. Sigurvegararnir taka síðan þátt í Evrópukeppni Ungra vísindamanna (EUCYS) sem fer fram í september ár hvert.
 
Allar vísindagreinar eru jafnhæfar og er keppnin opin öllum námsmönnum á aldrinum 15 – 20 ára.
 
Þátttakendur velja sér viðfangsefni, rannsaka það og setja fram niðurstöður á rannsókn sinni með leiðsögn kennara eða annara sem kennari eða starfsfólk Háskóla Íslands bendir á. Að hverju verkefni mega 1-3 nemendur vinna saman.
 
Verkefnin í keppninni þurfa ekki endilega að vera hrein nýsköpun, hugmyndirnar mega vera byggðar á eldri verkefnum nemenda eða vísindamanna. Aðalatriðið er að nota hina vísindalegu aðferð, finna nýjan flöt eða koma með nýja hugmynd án þess að eigna sér hugmyndir annarra. Þannig á að kynna það sem aðrir hafa gert á sama eða svipuðu sviði og byggja nýjar hugmyndir ofan á. 
 
Keppt er í tíu mismunandi flokkum. Undir hverjum flokki er hægt að koma með verkefni tengd fjölmörgum fagsviðum svo það eru lítil takmörk á því hverskonar vísindagreinar verkefnin mega falla undir. Flokkarnir skiptast á eftirfarandi hátt:
 • Eðlisfræði

 • Efnafræði

 • Efnisfræði

 • Félagsvísindi

 • Heilbrigðisvísindi

 • Jarðvísindi

 • Líffræði

 • Stærðfræði

 • Umhverfisfræði

 • Upplýsinga- og tölvunarfræði

 • Verkfræði

Verkefnin fela í sér nýjungar á sviði fræða, vísinda og tækni. Dómnefnd metur niðurstöðurnar út frá eftirfarandi þáttum:
 • nýnæmi verkefnis og frumleika í nálgun rannsóknaspurninga og rannsóknaraðferða

 • hæfni, þekkingu og nákvæmni í hönnun og framkvæmd verkefnis

 • rökleiðslu og skýrleik í túlkun niðurstaðna gæðum skriflegrar greinargerðar 

 • hæfni til að ræða og kynna verkefnið fyrir dómnefnd.

Sigurvegarar Landskeppni Ungra vísindamanna keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppninni. Árið 2019 var keppnin haldin í Sofia, Búlgaríu. Árið 2020 þurfti að fresta keppni sökum COVID-19 heimsfaraldursins. Evrópukeppnin verður haldin í Salamanca á Spáni árið 2021. Nánari upplýsingar má finna á opinberri heimasíðu keppninnar.

Nánari upplýsingar um keppnina veita:
Guðrún J. Bachmann, kynningarstjóri vísindamiðlunar, gudrunba@hi.is (s. 525 4234/864 0124)
Ragna Skinner, verkefnisstjóri á sviði samfélagsverkefna, ragnaskinner@hi.is (s. 525 4207)
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is