Tveir ungir Íslendingar eru á leið til Tallinn til þess að taka þátt í Evrópukeppni ungra vísindamanna sem fram fer dagana 22.-27.september. Þetta eru þau Herdís Ágústa Kristjánsdóttir Linnet, sem komst að því í rannsókn sinni að stórlega er brotið á rétti barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi, og Vífil Harðarson, sem komst að því að mögulegt er að búa til sápu úr hliðarafurðum sem verða til við framleiðslu lýsis.

Vífill og Herdís Ágústa urðu hlutskörpust í landskeppni ungra vísindamanna sem fram fór í Háskóla Íslands í vor. Herdís Ágústa, sem er nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð, kannaði stöðu barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Í verkefninu sem hún vann í samstarfi við Barnaheill komst hún að því að stórlega er brotið á rétti barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi, t.a.m. þeim rétti barna til að tjá skoðanir sínar. Herdís Ágústa hefur verið í ungmennaráði Barnaheilla og var lögfræðingur félagsins henni innan handar við rannsóknina.

Vífill, sem brautskráðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í vor og hefur nýhafið nám í hagnýttri stærðfræði við Háskóla Íslands, rannsakaði hvort nýta mætti hliðarafurð við framleiðslu lýsis til að búa til sápu. Með verkefninu vildi Vífill stuðla að því að auðlindir við Íslandsstrendur yrðu betur nýttar, meðal annars vegna umhverfissjónarmiða. Vífill náði þessu markmiði sínu og bjó til sápu úr sjávarafurðum.

Athyglisvert er að báðir þessir ungu vísindamenn unnu verkefni sem ætlað er að hafa góð áhrif á samfélagið og verður spennandi að fylgjast með þeim í Tallinn í lok mánaðarins.

Landskeppni ungra vísindamanna er haldin ár hvert í Háskóla Íslands og er sigurvegarinn jafnan sendur í Evrópukeppni ungra vísindamanna. Í ár gat dómnefnd hins vegar ekki valið á milli tveggja efstu verkefnanna og því verða fulltrúar Íslands í ár tveir.