Sigurvegarar koma úr ýmsum áttum
Ekki er til ein leið að sigri eða vel heppnuðu rannsóknarverkefni. Á síðustu árum hafa keppendur úr ólíkum skólum með ólík verkefni farið fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni ungra vísindamanna og lesa má nánar um þau hér neðar á síðunni.
Öll verkefnin sem unnið hafa Landskeppni ungra vísindamanna eiga það sammerkt að vera samfélaginu til góðs. Það er einmitt þema keppninnar. Vísindamenn skulu hafa í huga að vera samfélaginu til góðs með einhverjum hætti.
Við hvetjum öll þau ungmenni sem hafa góða hugmynd að láta slag standa og senda inn tillögu að verkefni í keppni ungra vísindamanna.
Til mikils er að vinna, því ekki er einungis í boði að taka þátt í Evrópukeppninni heldur hafa þáttakendur líka fengið boð um að taka þátt í International Swiss Talent Forum sem haldið er árlega í Sviss. Því er þetta kjörið tækifæri til að mynda tengslanet við aðra unga vísindamenn alls staðar að úr heiminum.
Verðlaunaverkefni Landskeppninnar í gegnum tíðina
Your Title Goes Here
Your content goes here. Edit or remove this text inline or in the module Content settings. You can also style every aspect of this content in the module Design settings and even apply custom CSS to this text in the module Advanced settings.
2017 - Can Icelandic cod oil be as efficiently saponified as coconut oil? og Staða barna í leit að alþjóðlegri vernd á Ísland
Tveir framhaldsskólanemar tóku þátt í Evrópukeppni ungra vísindamanna í Tallin 2017 með tvö framúrskarandi rannsóknaverkefni sem kepptu til úrslita í Landskeppni ungra vísindamanna.
Landskeppnin fór fram í Háskóla Íslands 6. apríl 2017. Tvö rannsóknarverkefni höfðu verið valin til þátttöku og höfðu keppendur unnið að þeim undanfarna mánuði. Dómnefnd keppninnar mat bæði verkefni sem framúrskarandi og aðeins herslumunur skildi milli fyrsta og annars sætis.
Vífill Harðarson, nemandi við Menntaskólann í Hamrahlíð, varð í fyrsta sæti með verkefnið „Can Icelandic cod oil be as efficiently saponified as coconut oil?“ Þar rannsakaði hann hvort nýta mætti hliðarafurð við framleiðslu lýsis til að búa til sápu. Með verkefninu vildi Vífill stuðla að því að auðlindir við Íslandsstrendur yrðu betur nýttar, meðal annars vegna umhverfissjónarmiða. Leiðbeinandi Vífils var Stefan Christian Otte, kennari við MH, en Vífill naut einnig aðstoðar Guðmundar G. Haraldssonar, prófessors í efnafræði við Háskóla Íslands og fékk stuðning frá LÝSI hf.
Í öðru sæti urðu Herdís Ágústa Linnet og Hafþór Freyr Líndal með verkefnið „Staða barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi“. Líkt og heitið gefur til kynna rannsökuðu þau hvort og hvernig Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er framfylgt á Íslandi við mótttöku barna á flótta. Herdís og Hafþór eru bæði í Ungmennaráði Barnaheilla en Herdís stundar nám við MH og Hafþór í Þýskalandi. . Lögfræðingur Barnaheilla, Þóra Jónsdóttir, leiðbeindi þeim við verkefnið en þar að auki nutu þau stuðnings Ernu Kristínar Blöndal, doktorsnema í lögfræði við Háskóla Íslands.
Í dómnefnd sátu Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarsetra Háskóla Íslands (formaður), Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, og Birgir Á. Urbancic framhaldsskólakennari. Sem fyrr segir var það mat dómnefndar að um tvö mjög frambærileg verkefni væri að ræða. Þá tók dómnefndin það fram að það væri sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig keppendur hefðu valið sér verkefni með það í huga að bæta samfélag sitt með einhverjum hætti og sýna þannig samfélagslega ábyrgð.
Dómnefndin mælti með því að bæði verkefnin fengju að fara alla leið í Evrópukeppni ungra vísindamanna. Því tóku Vífill og Herdís þátt í þeirri keppni en hún var haldin í Tallin í Eistlandi í september 2017.
2016 - Detecting brain waves for use in responsive programming
Höfundar verkefnis eru Lilja Ýr Guðmundsdóttir og Ingibjörg Sóley Einarsdóttir frá Menntaskólanum í Reykjavík. Leiðbeinandi þeirra frá Háskóla Íslands er Lotta María Ellingsen, lektor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild. Þar að auki hafa þær notið stuðnings Birgis U. Ásgeirssonar frá MR sem fer með til Brussel og verður þeim innan handar á fyrstu keppnisdögum. Verkefnið snýst um að þróa tölvuforrit sem gerir fólki kleift að framkvæma aðgerðir með hugaraflinu einu saman. Telja þær að þetta geti til dæmis nýst hreyfihömluðu fólki, en að einnig að björgunarsveitir geti nýtt sér þessa tækni og minnkað þannig áhættu björgunarsveitarmanna.
Verkefnið sigraði í Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2016 og mun keppa í flokki verkfræðiverkefna í Evrópukepnni Ungra vísindamanna í Brussel 2016.
2015 - Áhrif öskufalls á gróður
Verkefnið snérist um að rannsaka hvort gras gæti vaxið aftur eftir öskufall og þá hver áhrif öskufalls væri á gróðurinn.
Höfundar verkefnisins, þær Súsanna Katarína Sand Guðmundsdóttir og Kristín Björg Þorsteinsdóttir gróðursettu rýgresi í potta og dreifðu yfir pottana misþykku lagi af grófri og fínni ösku úr Eyjafjallajökulsgosinu. Á Íslandi eru tíð eldgos og var tilgangur verkefnisins að komast að því hvernig væri best fyrir bændur að bregaðst við eftir öskufall til að vernda beitilönd sín og örva grasvöxt.
Verkefnið sigraði Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2015 og keppti í flokki líffræðiverkefna í Evrópukeppninni sem fór fram í Mílanó á Ítalíu. Súsanna og Kristín komu báðar úr Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Leiðbeinandi þeirra úr Háskóla Íslands var Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði.
2015 - Mjólk í gleri
Elvar Kató Sigurðsson, Friðgeir Óli Guðnason og Örn Bjartmars Ólafsson lentu í öðru sæti í Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2014 með verkefnið „Mjólk í gleri.“ Dómnefnd Landskeppninnar ákvað að senda verkefnið í Evrópukeppnina þar sem það var á meðal annarra matarverkefna í sérstökum EXPO flokki. Heimssýningin EXPO var haldin í Mílanó sama ár og var þema sýningarinnar „Feeding the Planet. Energy for Life.“
Hugmyndin að verkefninu var að opna mjólkurbúð þar sem fólk fyllti mjólk á 100% endurnýtanlegar glerflöskur. Voru umhverfissjónarmið ofarlega í huga aðstandenda verkefnisins, auk þess sem þeir töldu að þetta gæti verið ódýrari valkostur en að kaupa mjólk í fernum.
Framkvæmd var viðhorfskönnun þar sem fólk var spurt hvort það hefði áhuga á að kaupamjólk í gleri og þá útskýra hvers vegna. Einnig framkvæmdu nemendurnir skynmatspróf þar sem tilgangur var að kanna hvort bragðmunur væri á mjólk í gleri annars vegar og mjólk í fernum hins vegar.
Þó svo að fólki hafi ekki fundist bragðmunur á mjólkinni var mikill vilji fyrir því að kaupa mjólk í glerflöskum. Voru það ekki síst umhverfissjónarmið sem voru nefnd sem ástæða fyrir áhuga á að kaupa mjólk í umbúðum sem mætti fylla á aftur.
Elvar Kató, Friðgeir Óli og Örn komu allir úr Framhaldsskólanum í Mosfelssbæ. Leiðbeindandi þeirra frá Háskóla Íslands var Birna Þórisdóttir, doktorsnemi í næringarfræði.
2014 - Flækjan
Hinrik Ragnar Helgason keppti fyrir Íslands hönd í Varsjá í Póllandi með verkefnið Flækjan eða „The Tangle“
Hinrik lauk námi frá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ en hóf síðan nám í hestafræðum við Háskólann á Hólum. Hann er mikill áhugamaður um hesta og hefur verið bæði íþrótta og gæðingadómari í ýmsum keppnum. Þar að auki hefur hann keppt sjálfur og lenti meðal annars í 2. sæti í tölti á Íslandsmeistaramóti í hestaíþróttum 2014.
Framlag Hinriks til Evrópukeppni ungra vísindamanna tengist óbeint hestamennskunni, því segja má að hugmyndin hafi kviknað meira og minna á hestbaki. Verkefnið er lausn á vandamálinu sem fylgir því að geyma heyrnartól í vasanum eða annarsstaðar, þar sem snúran vill alltaf flækjast. Hugmyndina fékk Hinrik eftir að hafa verið í sífellu með flókahnút í höndunum þegar grípa átti til heyrnatólanna. Þetta gerist sérstaklega oft þegar hann sinnir hestunum og hefur hann náð að flækja heyrnartólin við ólíklegustu hluti sem leitt hefur til ýmissa vandræða og oftar en ekki hafa tækin endað á jörðinni undir fótum hesta og manna.
Nútíminn kallar á að við séum á ferð og nýtum tímann vel, hlustum á hlaðvörp, hljóðbækur og fylgjumst með því sem er að gerast í heiminum. Þess vegna er mikilvægt að gagnleg tæki eins og heyrnartól virki vel og séu ekki til trafala.
HRH plugs eins og Hinrik kallar heyrnatól sem hann hannaði, byggja á því að snúrur þeirra vindast inn í lítið hylki sem er byggt upp eins og málband sem rúllast sjálfkrafa upp. Snúrurnar eru auk þess flatar en tilraunir sýna að slíkar snúrur flækjast síður en þær sívölu. Hægt er að stilla lengd snúrunnar af eftir hentugleika og hún er dregin inn með einni takkahreyfingu.
Hugmynd Hinriks hefur ýmsa fleiri kosti og er meðal annars umhverfisvæn, því bæði eiga heyrnatólin að geta enst lengur í útfærslu Hinriks og þau þurfa engar auka umbúðir. Þegar tæki endast vel og lengi myndast mun minni úrgangur meðal annars vegna þess að við þurfum að framleiða minna og færri hlutir enda strax í ruslinu; en einnig vegna þeirra orku sem framleiðsla krefst. Hinrik telur þetta mikilvægt og vonast til að heyrnartól hans standi undir þessum kröfum.
Ferðin til Varsjár var mikið ævintýri fyrir Hinrik. Þar hitti hann jafnaldra víðs vegar að úr Evrópu, vísindamenn framtíðarinnar og verða þar örugglega margir snillingar á ferð. Verkefnin í keppninni og áhugamál keppendanna eru mörg og ólík svo þarna var margt að sjá, heyra og læra.
2009 - Líkan að gervitaug
Kári Már Reynisson, nemandi við Menntaskólann Hraðbraut var aðeins 12 ára þegar áhugi hans kviknaði á þróun gervitaugar sem hugsanlega gæti hjálpað þeim sem orðið hefðu fyrir alvarlegum taugaskemmdum. Verkefni hans „Líkan að gervitaug“ bar sigur úr býtum í Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2009.
Verkefnið byggði á hugmynd um hönnun tækis sem á að geta lesið taugaboð í enda taugar sem hefur farið í sundur, flytja þau ákveðna vegalengd og koma boðunum til skila til lífæris s.s. vöðva eða inn í fjarlægari taugaenda. Í verkefninu voru lagðar fram hugmyndir að því hvernig tengja mætti saman lifandi taugavef og dauðan hlut úr ólífrænum efnum og gerviefnum.
Leiðbeinandi Kára við sigurverkefnið var Hilmar Pétursson, kennari við Menntaskólann Hraðbraut. Kári var fulltrúi Íslands í Evrópukeppni Ungra vísindamanna í París árið 2009.
2007 - Hálkuvarinn
Magni Rafn Jónsson og Sigurður Freyr Kristinsson, nemendur í Iðnskólanum í Reykjavík báru sigur úr býtum í Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2007 með „Hálkuvaranum.“
Hálkuvarinn er umhverfisvæn lausn á hálkuvanda bílaeigenda, sem ætlað er að auka öryggi í umferðinni og hafa góð áhrif á umhverfið. Búnaðuinum er ætlað að auka veggrip bifreiða þegar hún hemlar en einnig að auðvelda bifreið að fara af stað í mikilli hálku.
Í undirbúningi og þróun búnaðarins voru gerðar margvíslegar tilraunir og prófanir til að kanna virkni hans. Leiðbeinandi Magna og Sigurðar var Pétur Hermannsson, kennari. Magni og Freyr voru fulltrúar Íslands í Evrópukeppni Ungra vísindamanna sem fór fram í Valensía á Spáni árið 2007.
2005 - Nuddgallinn
Árið 2005 voru vinkonurnar Lilý Erla Adamsdóttir, Valdís Ösp Jónsdóttir og Una Guðlaug Sveinsdóttir úr Menntaskólanum á Akureyri á meðal þátttakenda í keppninni Ungir Vísindamenn. Þær sigruðu landskeppnina hér heima með verkefnið Nuddgallinn og kepptu því fyrir Íslands hönd í Evrópukeppninni sem þá fór fram í Moskvu. Vinkonurnar höfðu þróað og útfært hugmynd um nuddgalla fyrir ungabörn sem kennir foreldrum að nudda börn sín. Skömmu eftir að þær komu heim stofnuðu þær síðan fyrirtæki í kringum verkefnið og starfa tvær þeirra enn við framleiðsluna.
Við ræddum við þær stöllur um verkefnið en þær voru á einu máli um að þátttakan í keppninni hafi verið skemmtileg, lærdómsrík og gefandi. Una Guðlaug sagði okkur nánar frá ferlinu, hvernig verkefni þeirra kom til og hvernig þeim fannst að taka þátt.
„Við vorum á lokaárinu okkar í MA vorið 2005 og kennarinn okkar í uppeldisfræði, Brynja Harðardóttir, hvatti okkur til að nýta lokaverkefnið í uppeldisfræðiáfanganum til þáttöku í Ungir vísindamenn. Hún kynnti keppnina fyrir okkur og fékk fyrrum sigurvegara úr landskeppninni, Önnu Sigríði Kristjánsdóttir sem hafði sigrað með verkefni um vetnishús, til að kynna fyrir okkur keppnina.“ Drifkraftur Brynju varð til þess að fjórir hópar úr bekknum tóku þátt í landskeppninni og stóð á bakvið fjögur af sjö verkefnum sem kepptu þetta ár.
Spurð að því hvernig þær hafi fengið hugmyndina að nuddgallanum segir Una Guðlaug „Við sátum þarna að „brainstorma“ og fengum hugmynd að galla sem nuddaði barn. Við skissuðum því upp galla sem maður gat stungið í samband en það var allt of flippuð hugmynd og við hlógum og gerðum mikið grín að henni. Svo þegar við vorum búnar að hugsa þetta aðeins lengra og þróa hugmyndina betur komst gallinn í núverandi mynd.“ Í stað galla er þetta samfella sem nuddar ekki sjálf heldur sýnir hún leiðbeiningar sem foreldrarnir geta nýtt sér til að nudda börn sín. Þannig hvetur hún foreldrana til að verja tíma með börnunum sínum og nudda þau, sem getur verið gott og gefandi fyrir samband þeirra við börnin. „Þetta kenndi okkur að gefa öllum hugmyndum séns, því þó eitthvað virðist ótrúlega flippað og fyndið í upphafi þá er alveg hægt að finna eitthvað út úr því.“
Una Guðlaug segir þátttökuna í keppninni hér heima hafa verið stórskemmtilega. Það hafi verið mikil vinna að undirbúa keppnina og stelpurnar hafi verið svo mikið saman að þær voru farnar að klára setningar hver fyrir aðra og mynda einkahúmor á því stigi að engin annar skildi. „Við vorum vinkonur fyrir en það má segja að við höfum orðið enn betri vinkonur við þetta og erum enn miklar vinkonur.“
„Við byrjuðum að vinna þrjár frumgerðir af gallanum, samfellur keyptar út í búð sem Lilý Erla handsaumaði leiðbeiningar í“ útskýrir Una Guðlaug. Síðan bjuggu stúlkurnar til spurningalista og leyfðu foreldrum að prófa gallana á börnum sínum. Foreldrarnir svöruðu síðan spurningum um hvernig samfellan reyndist þeim. Þótt úrtakið hafi verið smátt til að byrja með, var þetta góð byrjun á löngu ævintýri en Una Guðlaug segir að það hafi verið ógleymanlegt að sjá hugmyndina sína verða að veruleika.
Sem fyrr segir þá sigruðu stúlkurnar keppnina hér heima og voru því sendar í Evrópukeppnina til að keppa fyrir hönd Íslendinga. Keppnin úti var mikil og mögnuð upplifun en líka nokkuð óvenjuleg. „Rússland er kannski ekki frjálslyndasta land í heimi og við vorum oft nálægt því að koma okkur í vandræði.” En með góðri hjálp bjargaðist þetta þó allt saman. Una Guðlaug segir að það hafi verið ótrúlega gaman að standa í básnum og kynna verkefnið og góð æfing að þurfa að svara öllum spurningum á ensku. Það var einnig spennandi að koma til Rússlands, upplifa menningarheim ólíkan þeim íslenska og kynnast keppendum hvaðanæva að.
Eftir að stelpurnar komu heim hafa þær unnið verkefnið meðfram námi, starfi og barnauppeldi. „Árið 2006 stofnuðum við fyrirtækið Cuddle Me og fórum í framhaldi af því að selja samfellurnar. Síðan þá er þetta búið að malla í hjáverkum hjá okkur og við erum enn að selja þessa galla. Á sama tíma erum við allar búnar að ljúka háskólanámi, Valdís er búin að eignast þrjú börn og Lilý eitt, við erum búnar að búa í ýmsum löndum en nuddgallinn hefur alltaf fylgt okkur. Nú höfum við sett kraft í þetta aftur og samfellan er kominn í sex búðir, þrjár á Akureyri og þrjár í Reykjavík.“ Verkefnið er enn í þróun og núna langar þær til dæmis að fara yfir í að nota lífræna bómul.
Eins og sjá má þá eru þessar hugmyndaríku og athafnasömu vinkonur hæstánægðar með að hafa tekið þátt í landskeppninni og Evrópukeppninni Ungir Vísindamenn enda var ferlið ógleymanlegt og hafði svo sannarlega áhrif á framtíð þeirra.
Meira um Cuddle Me á facebooksíðunni: https://www.facebook.com/CuddleMe
2004 - Hasskötturinn
Verkefnið „Hasskötturinn“ var annað tveggja verkefna sem bar sigur úr býtum í Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2004. Þrír nemendur Verkmenntaskóla Austurlands, Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir, Eva María Þrastardóttir og Stefán Þór Eysteinsson, áttu heiðurinn af verkefninu. Þau skoðuðu lyktarskyn katta og hvort hægt væri að temja ketti til að nota lyktarskynið og þjálfa þá til leitar að fíkniefnum.
Notuðu vísindamennirnir aðferðir sálfræði og líffræði til að svara rannsóknarspurningum sínum. Þau framkvæmdu tilraun með tvo ketti, þar sem kettirnir voru settir, annar í einu, í þar til gerðan þjálfunarkassa og látnir leita að ákveðinni lykt. Lyktin kom af tepoka, sem nemendurnir höfðu komið fyrir í þjálfunarkassanum. Þegar kettirnir höfðu fundið lyktina fengu þeir rækju í verðlaun.
Verkefnið keppti í Evrópukeppni Ungra vísindamanna sem fór fram í Dublin á Írlandi þetta árið.
2004 - Áhrif fjölbreytilegs umhverfis á sköpunargáfuna
Hrafn Þorri Þórisson, nemandi á félagsfræðibraut í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fjallaði um áhrif fjölbreytilegs umhverfis á þróun sköpunargáfu í verkefni sínu „Áhrif fjölbreytilegs umhverfis á sköpunargáfuna.“ Verkefnið var annað tveggja verkefna sem bar sigur úr býtum í Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2004.Í verkefninu var lögð áhersla á sköpunargáfu í vélvæddri greind. Fáar eða engar nútímarannsóknir á vélviti (e. artificial intelligence) leggja áherslu á þessa eiginleika mannlegs vits og er að mestu leyti látið sem sköpunargáfa sé eins konar hliðarafurð af rökfræði.
Til að rannsaka þessa eiginleika skapaði Hrafn Þorri heim þar sem íbúarnir eru skordýr sem gædd eru eiginleikum, æxlast og þróast. Til að líkja eftir þeirri þróun sem á sér stað í náttúrunni notaði Hrafn einfalda genetíska-algorithma, sem sáu um þá stöð í heila dýra sem mynduðu ráðagerðir. Umhverfið var síðan hannað til að vera hliðstætt því sem gengur og gerist í náttúrunni, þ.e. með vistkerfi þar sem gróður vex, dafnar og deyr. Hringrásin fékkst með því að nota reikniaðferðir sem kallast Cellular Automata. Í verkefnalýsingunni sagði Hrafn að þessi reglulega hringrás væri mikilvæg fyrir þróun greindar, þar sem ólíklegt væri að dýr gætu lært að lifa í heimi glundroða, sama hversu gott greindarkerfi þeirra væri.
Verkefnið keppti í Evrópukeppni Ungra vísindamanna sem fór fram í Dublin á Írlandi þetta árið.
2003 - Vetnishúsið
Anna Sigríður Kristjánsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Böðvar Sturluson, nemendur við Fjölbrautaskólann í Ármúla sigruðu Landskeppni Ungra vísindamanna árið 2003 með Vetnishúsinu. Leiðbeinandi þeirra var Ólafur Hjörtur Sigurjónsson, aðstoðarskólameistari.
Í verkefninu var lögð fram verkfræðileg tillaga um hús sem nýtti sólarorku, vindorku og heitt vatn úr jörðu. Þessir orkugjafar voru nýttir saman til að framleiða rafmagn sem íbúar hússins notuðu. Umframorkunni var breytt í vetni sem mátti nota á heimilisbílinn eða til að selja inn á kerfið. Ef rafmagnsframleiðslan var ekki næg var hægt að breyta vetninu aftur í rafmagn. Í verkefninu var lögð sérstök áhersla á að hús af þessari gerð væri hægt að byggja í þriðja heiminum þar sem víða er mikill orkuskortur.
Þau tóku þátt í Evrópukeppninni sem það árið fór fram í Búdapest. Þrátt fyrir að verkefnið hafi ekki unnið til verðlauna í keppninni vakti það mikla athygli. Ári síðar fór hópurinn með verkefnið á alþjóðlega sýningu ungra vísindamanna í Shanghai í Kína þar sem það vann fyrstu verðlaun. Dómararnir voru mjög ánægðir með verkefnið og tóku sérstaklega fram að skýrslan um það hefði verið skrifuð á góðu máli og verið skýrt fram sett.
1999 - Vetrarbrautarþyrpingin MS1621+2640
Árið 1999 hlaut íslenskt lið fyrstu verðlaun í Evrópukeppni Ungra vísindamanna fyrir verkefni um vetrarbrautarþyrpingu. Fjórir nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík fengu fyrstu verðlaun í samkeppni ungs fólks í vísindum og tækni. Sigurliðið fékk boð um að keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppninni sem haldin var í Grikklandi það árið. Sigurliðið var skipað þeim Jóel Karli Friðrikssyni, Páli Melsteð, Sverri Guðmundssyni og Tryggva Þorgeirssyni og nefndu þeir verkefnið sigg Vetrarbrautarþyrpingin MS1621+2640. Nutu þeir handleiðslu Sigfúsar Sigmyndssonar stjarneðlisfræðings og kennara í MR.
Verkefnið fólst í að unnið var úr ljósmyndum, sem teknar höfðu verið af tveimur íslenskum vísindamönnum með norræna stjörnusjónaukanum á Kanaríeyjum og beitingu þeirra við notkun eðlisfræði til að svara mikilvægum spurningum í nútíma eðlisfræði, sveigju ljóss í geimnum vegna þyngdarlinsuáhrifa.
Vinna hópsins fólst einkum í að samræma íslensk gögn við kanadísk gögn sem voru til viðmiðunar og kanna með sameinuðum gagnagrunni hvaða vetrarbrautir á mynd íslenska hópsins tilheyra vetrarbrautarþyrpingunni MS1621+ 2640. Þannig var sett upp línurit sem sýndi lit vetrarbrauta og fjarlægð þeirra frá jörðu með því að nota eðlisfræði rauðviks ljóss. Þá reyndi hópurinn að ákveða eðlisfræðilegar stærðir í hinni fjarlægu vetrarbrautarþyrpingu, svo sem massa, fjarlægð frá jörðu, ljósafl og lit. Einnig freistaði hópurinn þess að athuga hvort vetrarbrautarþyrpingin hefur vegna gífurlegs massa síns svokölluð þyngdarlinsuáhrif á ljós frá bakgrunnsuppsprettum ljóss í himingeimnum.
Tryggvi, Páll og Sverrir kepptu fyrir Íslands hönd í Grikklandi og eins og fyrr segir hlutu þeir fyrstu verðlaun fyrir verkefnið.