Kári Már Reynisson, 17 ára stúdent frá Menntaskólanum Hraðbraut, hélt til Parísar nú í morgun til að keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni ungra vísindamanna. Um 40 lönd taka þátt í keppninni að þessu sinni, sem er nú haldin í 21. skipti.

Auk Evrópulanda senda Bandaríkin, Kína og Japan fulltrúa til keppninnar. Kári Már keppir þannig við unga og bráðefnilega vísindamenn frá þremur heimsálfum. Verkefni Kára Más, „Líkan að gervitaug“ bar sigur úr býtum í Landskeppni ungra vísindamanna sem fram fór við Háskóla Íslandsí vor.

Í umsögn dómnefndar í or kom m.a. fram að verkefni Kára sé fullt af hugmyndaauðgi og útfærsluhugmyndir hans frumlegar. Kári Már var aðeins 12 ára þegar áhugi hans kviknaði á þróun gervitaugar sem hugsanlega gæti hjálpað þeim sem orðið hefðu fyrir alvarlegum taugaskemmdum.

Allar götur síðan hefur hann þróað hugmyndina og aukið við þekkingu sína. Kári Már kynnti verkefnið sitt í Menntaskólanum Hraðbraut í gær við góðar undirtektir nemenda en „líkanið að gervitauginni“ byggir á hugmynd um hönnun tækis sem á að geta lesið taugaboð í enda taugar sem hefur farið í sundur, flytja þau ákveðna vegalengd og koma boðunum til skila til líffæris s.s. vöðva eða inn í fjarlægari taugaenda.

Í verkefninu eru lagðar fram hugmyndir að því hvernig tengja má saman lifandi taugavef og dauðan hlut úr ólífrænum efnum og gerviefnum. Keppnin Ungir vísindamenn er liður í áætlun Evrópusambandsins sem er ætlað að efla tengsl vísinda og samfélags

Markmið keppninnar er að efla hæfni ungs fólks til að vinna ða rannsóknarverkefnum og stuðla að frumkvæði go sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda. Leiðbeinandi Kára Más við sigurverkefnið hefur verið Hilmar Pétursson, kennari við Menntaskólann Hraðbraut.