Evrópukeppni Ungra vísindamanna fór fram í Mílanó dagana 17. – 22. september 2015. Þrír ungir vísindamenn kepptu þar fyrir Íslands hönd, allir úr Framhaldskólanum í Mosfellsbæ. Örn Bjartmars Ólafsson keppti með verkefnið „Milk in glass bottles,“ og Súsanna Katarína Sand Guðmundsdóttir og Kristín Björg Þorsteinsdóttir með verkefnið „The effects of volcanic ash on vegetation.“
Ferðin og þátttaka í keppninni var einstök upplifun fyrir íslenska hópinn, þó svo að Íslendingarnir hafi ekki lent í verðlaunasætum. Þátttaka í keppni sem þessari er mikil reynsla fyrir ungt fólk og fjölmargar skemmtilegar ferðir og fróðlegir fyrirlestrar voru á dagskrá utan keppnistímans.
Örn, Súsanna og Kristín stóðu sig öll með stakri prýði í keppninni og eru reynslunni ríkari eftir þátttöku í keppninni.