Þær Ingibjörg Sóley Einarsdóttir og Lilja Ýr Guðmundsdóttir eru komnar til landsins eftir að hafa tekið þátt í Evrópukeppni ungra vísindamanna sem haldin var í Brussel dagana 15. – 20. september 2016. Fjörutíu þjóðir voru skráðar til leiks og um hundrað keppendur á aldrinum 15 – 20 ára tóku þátt. Þrjú fyrstu verðlaun voru afhent, og féllu þau í skaut nemenda frá Bandaríkjunum, Ítalíu og Noregi. Þó svo að íslensku keppendurnir hafi ekki lent í verðlaunasæti voru þeir glæsilegir fulltrúar Íslands í keppninni og það er nokkuð ljóst að þær stöllur eiga framtíðina fyrir sér í heimi vísindanna.
Hlutverk keppendanna var að útskýra framlag sitt fyrir dómurum og öðrum gestum sem heimsóttu keppnissvæðið. Þá var einnig mikið um áhugasama fjölmiðla, sem höfðu ekki síst áhuga á íslenska verkefninu, enda verkefnið framúrstefnulegt og minnti helst á eitthvað sem ætti frekar heima í vísindaskáldsögu. Á milli anna fengu keppendur einnig góðan tíma til að kynnast hver öðrum og skoða sig um í Brussel. Boðið var upp á skemmilegar ferðir og fróðlega fyrirlestra. Þá voru haldnar veislur þar sem borðin svignuðu undan belgískum krásum. Þetta voru annasamir en góðir dagar og voru stelpurnar sammála um að þátttaka í keppninni hafi verið frábær upplifun.