Fulltrúar Íslands í Evrópukeppni Ungra vísindamanna sem fer fram í Brussel í haust eru Lilja Ýr Guðmundsdóttir og Ingjibjörg Sóley Einarsdóttir, báðar nemendur við Menntaskólann í Reykjavík. Þær báru sigur úr býtum í Landskeppni Ungra vísindamanna sem fór fram vorið 2016.

Verkefni þeirra ber heitið „Detecting differences among brain waves between thinking and performing an action for use in responsive programming“. Verkefnið snýst um að þróa tölvuforrit sem gerir fólki kleift að framkvæma aðgerðir með hugaraflinu einu saman. Evrópukeppni Ungra vísindamanna verður haldin í Brussel í Belgíu dagana 15. – 20. september næstkomandi. Er þetta í tuttugasta og áttunda skiptið sem keppnin er haldin.

Ungir vísindamenn er verkefni á vegum Evrópusambandsins sem hefur það markmið að efla hæfni ungs fólks til að vinna að rannsóknarverkefnum og stuðla að auknu frumkvæði og sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda á sama tíma og því er ætlað að stuðla að samstarfi ungra vísindamanna þvert á landamæri þátttökuríkjanna. Háskóli Íslands heldur utan um verkefnið á Íslandi.

Áhugasamir nemendur geta sent inn hugmyndir að verkefnum í Landskeppni Ungra vísindamanna. Allar nánari upplýsingar um verkefnið veitir Guðrún Bachmann, gudrunba@hi.is.

©Kristinn Ingvarsson