Herdís Ágústa Linnet er önnur þeirra sem fór fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni ungra vísindamanna sem fram fór í Tallinn í september síðastliðnum. Herdís er nítján ára nemi við Menntaskólann við Hamrahlíð og Menntaskólann í tónlist. Í framtíðinni stefnir hún á framhaldssnám í tónlist. Auk þess að stunda nám við tvo menntaskóla situr hún í ungmennaráði Barnaheilla en samtökin komu að verkefninu hennar með beinum hætti. En hvernig datt þessum unga menntaskólanema að taka þátt í Evrópukeppni ungra vísindamanna?
Vissi ekki að keppnin væri fyrir félagsgreinar
„Þegar mér var sagt að keppnin væri ekki aðeins raunvísindakeppni heldur gæti ég tekið þátt með félagsfræðiverkefni fóru hjólin að snúast. Ég sá ekki alveg fyrir mér í upphafi hverni best væri að gera þetta en skoðaði svo málið með Barnaheillum og ákvað að taka þátt í gegnum þau. Ég hef verið í ungmennaráði Barnaheilla og gerði verkefnið ásamt öðrum sem koma þaðan. Verkefnið fjallar annars vegar um það að sýna skýrt hvaða mannréttindi gilda þegar börn koma til landsins og sækja um alþjóðlega vernd og hins vegar um það hvort þeim réttindum sé framfylgt.“
Herdís segir að skemmtilegast hafi verið að koma sjálfri sér á óvart í ferlinu. „Það var svo gaman að sjá verkefnið fæðast, fræðast og læra, kynnast nýju fólki,bæði innanlands og utan-.Það kom mér þó á óvart hversu miklir hæfileikar, færni og skapandi og frumlegar hugsanir keppenda allt niður í fimmtán ára. “
Evrópukeppnin býr til vinatengsl
Herdís Ágústa fór ásamt Vífli Harðarsyni til Tallinn í september síðastliðnum. Hún lýsir keppnini sem miklu skipulagi sem þó var ekki auðveld. „Keppnin úti í Eistlandi var vel skipulögð og skemmtileg. Verkefnin þarna voru alveg hreint mögnuð og áttu það öll sameiginlegt að vera skapandi og fela í sér umbætur fyrir samfélagið. Tallinn er falleg borg og mér leið mjög vel þarna. Ég var með æðislegri stelpu í herbergi og kynnist mjög góðu fólki á öllum aldri. Það var mikið álag á okkur en eftir morgunmat komum við næst heim á hótel eftir kvöldmat og kvöldskemmtun. Ásamt því að kynnast hinum keppendunum og verkefnum þeirra, stendur upp úr hið menningarlega; skoðunarferð í gamla bæinn, glæsilegt listasafn og fleira. Evrópukeppnin jók víðsýni mína, kynnti mig fyrir fólki út um allan heim og bætti sjálfstraustið. Ég verð alla tíð stolt af þessum árangri. Stolt af því að hafa tekið þátt og unnið að þessu verkefni. Hvort þetta muni hjálpa mér í framtíðinni verður að koma í ljós. Þetta mun allavega ekki skemma fyrir!“
Herdís Ágústa er þó ekki aðeins í vísindum heldur tekur hún sér ýmis verkefni fyrir hendur. „Ég er enn bara að þroskast sem manneskja og finna út hvað ég vil helst gera. Ég útskrifast bæði með stúdentspróf frá MH á mála- og tónlistarbraut og lýk framhaldsprófi í píanóleik frá Menntaskólanum í tónlist í vor. Ég er ennþá í ungmennaráði Barnaheilla og ætla mér að halda áfram með verkefnið mitt, dreifa afurð verkefnisins sem er veggspjald með helstu réttindum Barnasáttmálans og skoða betur aðstæður flóttabarna á Íslandi. Draumurinn er svo að komast inn í tónlistarháskóla erlendis vorið 2019 en til þess þarf ég að leggja mikið á mig. Vonandi rætist það.“