Í lok septembermánaðar var keppni Ungra vísindamanna haldin í Evrópu. Hinrik Ragnar Helgason tók þátt fyrir Íslands hönd með verkefnið sitt „Flækjan“ þar sem hann reyndi að finna lausn á vandamálinu að rafmagnsnúrur skuli alltaf flækjast.

Þátttaka í keppninni var mikil upplifun og ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt sem gerðist þessa daga. Það var líka gaman að koma til Varsjár “hún er bæði flott og lífleg borg og þangað fer ég örugglega aftur” segir Hinrik. Það sem stendur uppúr eftir heimkomu er samkvæmt Hinriki það að hafa hlustað á Nóbelsverðlaunahafa í efnafræði, Robert Huber lýsa því hvernig vísindin áttu hug hans allan og hvernig það að hljóta Nóbelsverðlaunin breytti nánast engu fyrir hann. Robert sagði keppendum að þeir sem hefðu það að markmiði að vinna Nóbelinn væru ekki heppilegir kandídatar. Miklu mikilvægara væri að leggja hug sinn og krafta í vísindin. Engin verðlaun eða viðurkenning jafnaðist á við það að komast skrefinu lengra í að kynnast því viðfangsefni sem maður hefði í rannsóknum sínum og uppgötva eitthvað sem engin annar hefði gert. Auðvitað hafi verið gaman að fá viðurkenningu sem fylgdu Nóbelsverðlaununum, en eina sem hafi í raun breyst í lífi hans hafi verið að hann fékk fleiri boð um að tala á sviði.

Annað sem stendur uppúr hjá Hinriki er magnað opnunarkvöld keppninnar, þá sérstaklega ótrúleg sandlistaverk listakonunnar Tatiönu Galistyna. „Hún var ótrúleg og töfraði fram mögnuð listaverk á örfáum mínútum.“ segir Hinrik. Listaverkin voru meðal annars myndir af Einstein, Newton og fleirum þekktum vísindamönnum.

Hinrik telur sig hafa öðlast meira sjálfsöryggi með þátttökunni í keppninni sérstaklega í því að koma frá sér efni á ensku. Í lok keppninnar átti hann ekki í nokkrum erfiðleikum með að tala við dómnefnd eða hvern þann sem hafði áhuga á verkefninu.

Þátttaka í keppninni víkkaði einnig sjóndeildahringinn og gaf ákveðna innsýn í menningu annara landa í gegnum hina keppendurna. Hinrik kynntist fjöldanum öllum af fólki víðs vegar úr heiminum. „Þessir krakkar voru að mörgu leyti ólíkir þeim sem ég þekki hér á Íslandi. Þau bjuggu yfir svo djúpri þekkingu og miklum áhuga á sviðum sem ég vissi varla að væru til, -samt náðum við svo vel saman”. Hinrik telur líklegt að hann hitti eitthvað af þessu fólki aftur. Margir voru forvitnir um Ísland og ekki ólíklegt að þau kíki hingað einhvern daginn. Einnig á Hinrik heimboð víðs vegar um heiminn sem hann á örugglega eftir að nýta sér.