Evrópukeppni ungra vísindamanna verður haldin í Mílanó dagana 17. – 22. september næstkomandi og er hún að þessu sinni nátengd heimssýningunni EXPO sem einnig fer fram í borginni. Þar mætast ungmenni á aldrinum 15 til 20 ára og kynna rannsóknarverkefni sín. Ísland sendir tvö verkefni í keppnina í ár en þau höfðu áður hreppt efstu sæti í landskeppni sem er undanfari Evrópukeppninnar. Verkefnið „The effects of volcanic ash on vegetation“ keppir í flokki verkefna sem heyra undir líffræði og í flokki sem er tileinkaður mat og næringu keppir verkefnið „Milk in glass bottles“.
Kristín Björg Þorsteinsdóttir og Súsanna Katarína Sand Guðmundsdóttir eiga heiðurinn af verkefni sem snýst um að rannsaka áhrif öskufalls á gróður. Var það unnið með beitilönd í huga, en Kristín og Súsanna vildu gera bændum kleift að bregðast rétt við ef til annars eldgoss kæmi sem breiddi ösku yfir beitilönd, líkt og gerðist í gosinu í Eyjafjallajökli.
Rannsóknin um mjólk í gleri fjallar um kosti og galla þess að selja mjólk í glerflöskum sem neytandinn tappar sjálfur á. Tveir keppendur kynntu verkefnið í landskeppninni, þeir Örn Ólafsson og Friðgeir Óli Guðnason, en Örn mun fara út í Evrópukeppnina fyrir þeirra hönd. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að fjölmargir hefðu áhuga á því að kaupa mjólk í gleri fremur en á fernu og voru umhverfissjónarmið helst nefnd sem ástæður.
Íslenskir keppendur hafa nokkrum sinnum unnið til viðurkenninga og verðlauna í Evrópkeppni ungra vísindamanna í gegnum tíðina en einungis einu sinni hreppt fyrsta sæti. Það var árið 1999 þegar þeir Tryggvi Þorgeirsson, Páll Melsted og Sverrir Guðmundsson, sem þá voru allir nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík, sigruðu með verkefninu „The Galaxy Cluster MS1621+2640“ sem fjallaði um samnefnda vetrarbrautarþyrpingu.
Þau Kristín, Súsanna og Örn, sem öll koma úr Framhaldskólanum í Mosfellsbæ, leggja nú lokahönd á undirbúning sinn fyrir keppnina. Fram undan er spennandi keppni þar sem saman koma hugmyndarík og snjöll ungmenni víðs vegar að úr Evrópu og víðar. Fjöldi þátttakenda er skráður til leiks og þykir mikill heiður að komast inn.